Fáanlegt í App Store og Google Play
Innskrá

Notkunarskilmálar Leggja þjónustunnar

  1. Skilmálar þessir gilda um þjónustu EasyPark Ísland, kt. 550419-0760, Borgartúni 27, 105 Reykjavík, í tengslum við Leggja.
  2. Notandi verður að vera rétthafi þess símanúmers sem hann skráir í þjónustuna.
  3. Til að geta notað þjónustu Leggja, þarf notandi að skrá sig í gegnum www.leggja.is., Leggja appið eða í síma 770-1414. Öll þjónusta við viðskiptavini er í þjónustuveri Leggja í síma 770-1414. Opnunartímar þjónustuversins er á gjaldskyldum tíma sem skilgreindur er af Bílastæðasjóði Reykjavíkur hverju sinni.
  4. Aðeins er tekið við greiðslukortum í þessari þjónustu.
  5. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem sett eru hverju sinni og finna má nánari upplýsingar um í gjaldskrá á vefnum www.leggja.is.
  6. EasyPark Ísland áskilur sér rétt til að breyta gjaldskránni á hverjum tíma en það skal þó tilkynnt með a.m.k. 14 daga fyrirvara annað hvort á vef þjónustunnar eða með SMS eða tölvupósti á notendur þjónustunnar.
  7. Gjaldskráin fyrir þjónustuna á hverjum tíma mun vera birt á vefnum www.leggja.is. Er gjaldskráin hluti af þessum samningi. Notendur geta einnig fengið upplýsingar um gjaldskrána í þjónustusímanum 770-1414 eða í Leggja appinu.
  8. Notandi heimilar gjaldtöku af greiðslukorti sínu sem hann gefur upp vegna greiðslu fyrir þjónustuna sem honum er veitt samkvæmt uppgefinni gjaldskrá á hverjum tíma. Takist ekki að skuldfæra greiðslukort áskilur EasyPark Ísland sér rétt til að innheimta greiðsluna eftir öðrum innheimtuleiðum.
  9. Notandi þarf að gefa upp nafn, kennitölu, heimilisfang, farsímanúmer, ökutækjanúmer, greiðslukortanúmer og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að fá aðgang að þjónustunni. Einnig þurfa notendur að merkja ökutæki sitt með merki þjónustunnar, en það þarf að vera á áberandi stað þar sem stöðuverðir Bílastæðasjóðs Reykjavíkur og Hörpunnar bílahúss geta séð það skýrt og greinilega vinstra megin í neðanverðri framrúðu ökutækisins.
  10. EasyPark Ísland, sem ábyrgðaraðili vinnslu í skilningi 4. tl. 1. mgr. 2. gr., sbr. og 1. tl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 90/2018 um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga, safnar og vinnur eftirfarandi persónuupplýsingar um notendur:
    1. Upplýsingar sem notandi veitir við skráningu í þjónustuna, sbr. 8. gr. hér að framan, eða í samskiptum við EasyPark Ísland í tengslum við þjónustuna, svo sem í tölvupóstsamskiptum eða í gegnum þjónustuver, þegar notandi nær í Leggja appið, sem og aðrar upplýsingar sem notandi veitir í tengslum við skráningu, svo sem fjárhagsupplýsingar. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar svo hægt sé að veita og nýta sér þjónustu Leggja
    2. Upplýsingar sem EasyPark Ísland safnar um notendur við notkun á Leggja þjónustunni og í tengslum við hana, svo sem á hvaða gjaldsvæði bíllinn er skráður í stæði, klukkan hvað og hve lengi hann er skráður. Framangreindar upplýsingar eru nauðsynlegar til að veita umbeðna þjónustu og ákvarða gjaldskyldu notanda og hvort hún hafi verið uppfyllt. Hafi notandi samþykkt sérstaklega að EasyPark Ísland safni staðsetningarupplýsingum með því að kveikja á staðsetningarþjónustu fyrir Leggja appið í símanum er staðsetningarupplýsingum við notkun á Leggja appinu safnað þegar bílnum er lagt í stæði gegnum GPS, IP og Wifi-aðgangsstaði til að ákvarða nákvæma staðsetningu á því tímamarki. Staðsetningarupplýsingum eftir það tímamark er hins vegar ekki safnað og er öllum staðsetningarupplýsingum eytt í lok dags. Er staðsetningarupplýsingum safnað í þeim tilgangi að bæta þjónustu við viðskiptavini og unnið með þær í þeim tilgangi að spá fyrir um laus stæði á ákveðnum gjaldsvæðum. Hægt er að breyta þessari stillingu hvenær sem er með því að breyta stillingunum í símanum þannig að staðsetningarupplýsingum sé ekki deilt.
    3. Allar upplýsingar sem notandi veitir og sem EasyPark Ísland safnar í samræmi við framangreint eru vistaðar í gagnagrunni og á öruggum netþjónum og unnið með þær þar. Allar greiðsluupplýsingar sem notandi veitir eru veittar í gegnum örugga greiðsluþjónustu Borgunar, þar sem þær eru dulkóðaðar og vistaðar í öruggri hýsingu, en EasyPark Ísland safnar hvorki né vinnur með greiðsluupplýsingar notenda. Notandi samþykkir jafnframt að EasyPark Ísland heimili Bílastæðasjóði Reykjavíkur, Hörpunni bílahúsi og öðrum aðilum sem þjónustan er í samtarfi við, sbr. ákvæði vii, heimild til að gera fyrirspurnir í gagnagrunn vegna þjónustunnar til að athuga greiðslu stöðugjalda notanda, svo sem ökutækjanúmeri og notkun út frá ökutækjanúmeri, sem og annað sem kannað vera nauðsynlegt til að ákvarða gjaldskyldu notanda.
    4. Við meðferð persónuupplýsinga hjá EasyPark Ísland er þess ávallt gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga, sem og uppfylli að öðru leyti meginreglur laganna um gæði gagna og vinnslu, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2018.
    5. Notandi á rétt á því að fá vitneskju um þær upplýsingar um hann sem unnið er með eða hefur verið unnið með í samræmi við 1. mg. 18. gr. laganna, sbr. þó 19. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti hins skráða.
    6. Notandi á jafnframt rétt á að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar séu leiðréttar, við þær aukið eða þeim eitt, sbr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 90/2018. Þá á notandi rétt á að persónuupplýsingum sé eytt, ef ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær, en undantekning á þessu eru persónuupplýsingar sem félaginu er skylt að varðveita samkvæmt lögum eða öðrum reglum, sbr. og nánar 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/2018.
    7. EasyPark Ísland stendur vörð um persónuupplýsingar notanda og eru þær almennt ekki framseldar til þriðja aðila án samþykkis viðkomandi eða til að fullnægja lagaskyldu. EasyPark Ísland kann þó að fela öðrum aðila að annast vinnslu persónuupplýsinga, svo sem vegna þjónustu eða samstarfs þriðja aðila við EasyPark Ísland, enda sé þá sannreynt að umræddur vinnsluaðili geti framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir og viðhaft innra eftirlit, sbr. 12. og 13. gr. laganna.
    8. Að öðru leyti en framan greinir fer um meðferð persónuupplýsinga hjá EasyPark Ísland í samræmi við gildandi lög og reglur hverju sinni.
  11. Notandi ber ávallt alla ábyrgð á tjóni vegna rangrar notkunar á þjónustunni. Hvort sem er vegna vals á röngu gjaldsvæði sem afleiðing af röngum innslætti eða af öðrum orsökum, þá er það á hans eigin ábyrgð. Slík mistök hafa engin áhrif á rétt Bílastæðasjóðs Reykjavíkur og Hörpunnar bílahús til greiðslu tímagjalds eða álagningar og innheimtu stöðvunarbrotagjalds.
  12. Notandi er ekki undanskilinn greiðslu stöðugjalds þó þjónustan sé ekki aðgengileg af einhverjum ástæðum, heldur ber honum þá að nýta aðra greiðslumöguleika til greiðslu stöðugjalds.
  13. Hafi notandi notað þjónustuna og sannanlega greitt stöðugjald í réttum gjaldflokki yfir ákveðið tímabil, ökutæki hans skráð í þjónustuna og verið merkt skv. gr. 9, en samt sem áður verið gert að greiða tímagjald eða álagningu og innheimtu stöðvunarbrotagjalds af Bílastæðasjóði á sama tímabili, ber notanda að leita til Bílastæðasjóðs um leiðréttingu á stöðvunarbrotagjaldinu.
  14. Notandi ber ábyrgð á greiðslum til EasyPark Ísland vegna umbeðinnar þjónustu frá farsíma sínum óháð því hver notar farsímann.
  15. Notandi heimilar EasyPark Ísland að senda honum tilkynningar í pósti, tölvupósti eða með SMS/MMS skilaboðum um efni sem varðar þjónustuna.
  16. EasyPark Ísland er heimilt að loka á þjónustu við notanda fyrirvaralaust, ef EasyPark Ísland hefur ástæðu til að ætla að notandi misnoti þjónustuna eða hafi gefið upp rangar upplýsingar við skráningu. Sama á við ef notandi er kominn í vanskil eða ekki reynist unnt að gjaldfæra skráð greiðslukort fyrir umbeðinni þjónustu.
  17. Notandi getur tilkynnt um uppsögn á þjónustunni með því að hringja í þjónustusímann 770-1414.

PERSÓNUVERNDARSTEFNA

  1. Persónuvernd þín skiptir Leggja miklu máli. Stefna þessi tekur til persónuupplýsinga hvort sem þeim er safnað og þær varðveittar með rafrænum hætti, á pappír eða með öðrum sambærilegum hætti. Stefnan tekur til skráningar, vörslu og vinnslu á persónuupplýsingum sem falla undir stefnuna. Stefnan er aðgengileg á heimasíðu Leggja.
  2. Um meðferð persónuupplýsinga gilda lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eins og þau eru á hverjum tíma, sem og viðkomandi hlutar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Taka lögin m.a. á vinnslu, vörslu og miðlun persónuupplýsinga.
  3. EasyPark Ísland ber ábyrgð á skráningu og meðferð persónuupplýsinga Leggja þar sem lausnin er í eigu félagsins og er svokallaður ábyrgðaraðili vinnslu í skilningi persónuverndarlöggjafar vegna þjónustu Leggja.

    Þá eru þeir aðilar sem Leggja kann að miðla upplýsingum til, sbr. V. kafli þessarar persónuverndarstefnu, sjálfstæðir ábyrgðaraðilar varðandi þá vinnslu upplýsinga sem fer fram á þeirra vegum og bera sjálfstæða ábyrgð á því að öll meðferð þeirra sé í samræmi við persónuverndarlöggjöf.

    Hægt er að hafa samband við okkur með því að senda skriflega fyrirspurn á leggja@leggja.is og með því að hringja í 770-1414 ef þú hefur einhverjar spurningar í tengslum við persónuvernd.

  4. Hlutverk Leggja er að gera notendum kleift að borga í stöðumæli í símanum. Vinnsla Leggja fer ýmist fram vegna framkvæmdar samnings, samþykkis, fyrirmæla í lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum, eða á grundvelli lögmætra hagsmuna. Til að geta sinnt hlutverki sínu safnar Leggja eftirfarandi upplýsingum og vinnur með þær í eftirfarandi tilgangi:
    • nafn þitt, símanúmer, heimilisfang, netfang ásamt kennitölu og greiðslumáta til að geta lokið við og uppfyllt kaup þín á bílastæðaþjónustu sem við bjóðum upp á eða höfum milligöngu um,
    • nafn þitt, kennitölu, tegund, umfang og dagsetningu viðskipta til að geta uppfyllt skyldu okkar samkvæmt bókhaldslögum,
    • nafn þitt, símanúmer, heimilisfang, netfang ásamt kennitölu með þínu samþykki til að geta sent þér þér kynningarefni, tilboð eða sérsniðnar auglýsingar, til að geta veitt þér kost á að taka þátt í könnunum, kynningarherferðum með verðlaunum, keppnum og öðrum kynningum,
    • nafn þitt, símanúmer, heimilisfang, netfang ásamt kennitölu með þínu samþykki til að geta haft samband við þig til að sinna gæðaeftirliti og/eða ef við höfum ekki heyrt í þér lengi,
    • nafn þitt og netfang með þínu samþykki til að geta gert þér kleift að nota vef- og samfélagsmiðlasíður okkar,
    • nafn þitt, símanúmer og netfang til að geta svarað fyrirspurnum og brugðist við óskum þínum, t.d. til að senda þér fréttabréf eða til að svara spurningum þínum og athugasemdum,

    Leggja safnar upplýsingum sem vafri þinn eða sími sendir og eru nauðsynleg þegar þú nýtir þér þjónustu okkar, þ.e. gögn sem geta falið í sér upplýsingar eins og GPS hnit, IP-tölu, tegund vafra, útgáfu vafra, síður þjónustunnar, tíma og dagsetningu heimsóknar og önnur talnagögn.

    Við notum vefkökur til þess að aðgreina þig frá öðrum notendum á vefsíðu Leggja. Vefkökur eru litlar textaskrár sem netvafrinn þinn vistar á tölvunni þinni sé netvafrinn þinn stilltur til að samþykkja notkun á vefkökum. Vefkökurnar gera okkur kleift að muna ákveðnar stillingar hjá notanda til að bæta notendaupplifun og fá tölfræðiupplýsingar um notkun á vefsíðu Leggja.is.

    Notendur geta ákveðið hvort þeir leyfa sumar eða allar vefkökur með stillingum í netvafra. Ef notendur kjósa að leyfa ekki vefkökur þá kann hluti vefsíðunnar að verða óaðgengilegur.

    Um er að ræða sjálfvirka upplýsingasöfnun vegna notkunar á vefsvæði og appi Leggja.

    Leggja notar þjónustur Google Analytics og Facebook Pixel til að greina umferð um vef og app og birta notendum sérsniðnar auglýsingar. Þessar þjónustur safna upplýsingum nafnlaust og gefa skýrslur um þróun á vefsvæðum, án þess að greint sé frá stökum notendum eða persónuupplýsingum.

  5. Við seljum aldrei persónuupplýsingar um þig. Við miðlum aldrei persónuupplýsingum til þriðja aðila án þess að samþykki þitt fyrir miðluninni liggi fyrir (sem þér er frjálst að hafna) nema þar sem okkur er það skylt samkvæmt lögum eða í þeim tilvikum sem talin eru upp í IV. kafla eða í næstu málsgrein.

    Okkur er heimilt að miðla persónuupplýsingum til þriðja aðila (vinnsluaðila) sem er þjónustuveitandi, umboðsmaður eða verktaki okkar í þeim tilgangi að ljúka við verkefni eða veita þér þjónustu eða vöru sem þú hefur beðið um eða samþykkt. Okkur er einnig heimilt að deila upplýsingum með vinnsluaðilum þegar það er nauðsynlegt til að vernda brýna hagsmuni t.d. við innheimtu á vanskilakröfu. Við deilum einnig upplýsingum, í tölfræðilegum tilgangi, með vinnsluaðilum sem vinna með okkur við gæða -og markaðsstarf. Við afhendum vinnsluaðilunum einungis þær persónuupplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir þá í framangreindum tilgangi og gerum við þá samning þar sem þeir undirgangast skyldu um að halda upplýsingum um þig öruggum og nota þær einungis í framangreindum tilgangi.

    Þá er athygli þín vakin á að allt efni sem þú birtir eða deilir á samfélagsmiðlasíðum okkar eru opinberar upplýsingar.

  6. Persónuverndarstefnan nær ekki til upplýsinga eða vinnslu þriðju aðila en við höfum enga stjórn á né berum ábyrgð á notkun, birtingu eða öðrum verkum þeirra þar sem þeir eru sjálfstæðir ábyrgðaraðilar varðandi þá vinnslu upplýsinga sem fer fram á þeirra vegum. Við hvetjum þig því til að kynna þér persónuverndarstefnu þriðju aðila, þ. á m. vefhýsingaraðilum þeirra síðna sem geta vísað á okkar, hugbúnaðarfyrirtækja á borð við Facebook, Apple, Google og Microsoft ásamt þeirri greiðsluþjónustu sem þú kýst að nota.
  7. Leggja leggur mikla áherslu á að vernda vel allar persónuupplýsingar og hefur því yfir að skipa innra eftirlitskerfi sem á að tryggja að ávallt skulu gerðar viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir.

    Við munum tilkynna þér án ótilhlýðilegrar tafar ef það kemur upp öryggisbrot er varðar persónuupplýsingarnar þínar sem hefur í för með sér mikla áhættu fyrir þig. Með öryggisbroti í framangreindum skilningi er átt við brot á öryggi sem leiðir til óviljandi eða ólögmætrar eyðingar persónuupplýsinga eða að þær glatist, breytist, verði birtar eða aðgangur veittur að þeim í leyfisleysi.

    Athygli þín er þó vakin á því að þú berð ábyrgð á persónuupplýsingum, t.d. nafni, kennitölu og mynd, sem þú kýst að deila eða senda á almennum vettvangi t.d. í gegnum spjallrás eða Facebook síðu Leggja.

  8. Leggja reynir eftir fremsta megni að halda persónuupplýsingum um þig nákvæmum og áreiðanlegum og uppfærir þær eftir þörfum. Við varðveitum persónuupplýsingar um þig á meðan þú vilt vera skráð(ur) notandi Leggja. Persónuupplýsingar um þig eru geymdar í 4 ár eftir að þú tilkynnir um uppsögn á þjónustunni. Ef möguleiki er á að persónuupplýsinganna kunni að vera þörf síðar til að uppfylla lagaskyldur, t.d. gagnvart skattyfirvöldum, eða til að höfða eða verjast réttarkröfu, munum við taka afrit af hlutaðeigandi persónuupplýsingum og varðveita þær á öruggu formi eins lengi og nauðsyn ber til.
  9. Þú átt rétt á og getur óskað eftir eftirfarandi upplýsingum með því að senda skriflega fyrirspurn á leggja@leggja.is:
    1. að fá að vita hvaða persónuupplýsingar eru skráðar um þig og hvernig þær eru tilkomnar og fá aðgang að persónuupplýsingunum,
    2. að fá upplýsingar um hvernig persónuupplýsingar um þig séu unnar,
    3. ð persónuupplýsingar um þig séu uppfærðar og leiðréttar,
    4. að persónuupplýsingum um þig sé eytt, ef ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær,
    5. að andmæla og / eða takmarka hvernig persónuupplýsingar séu unnar,
    6. að fá afhendar persónuupplýsingar sem þú hefur látið okkur í té eða að þær séu sendar beint til annars aðila með þeim takmörkunum sem réttindi og frelsi annarra setja,
    7. að afturkalla samþykki þitt til vinnslu þegar vinnsla byggist á þeirri heimild með sama hætti og þú gafst það eða með því að senda á okkur skriflega fyrirspurn,
    8. að fá upplýsingar um hvort fram fari sjálfvirk ákvarðanataka, þ.m.t. gerð persónusniðs og þau rök sem þar liggja að baki og einnig þýðingu og fyrirhugaðar afleiðingar slíkrar vinnslu.

    Beiðni þín verður tekin til greina og þér afhentar upplýsingarnar (þegar það á við) innan hæfilegs tíma, þó með þeim takmörkunum sem réttindi og frelsi annarra gera, þ.m.t. viðskiptaleyndarmál og hugverkaréttindi. Athygli er vakin á að innheimt er sanngjarnt gjald byggt á umsýslukostnaði sé farið fram á meira ein eitt eintak. Þér verður tilkynnt og gefin skýring ef töf verður á afgreiðslu eða ef ekki er unnt að verði við beiðninni að fullu eigi síðar en mánuði frá móttöku hennar.

    Þú átt alltaf rétt á að leggja fram kvörtun til Persónuverndar komi upp ágreiningur um meðferð persónuupplýsinga, en við kynnum að meta það ef þú gæfir okkur tækifæri til að leysa málið áður en þú hefur samband við Persónuvernd.

  10. Persónuupplýsingar um börn yngri en 17 ára er ekki safnað.
  11. Persónuverndarstefnan er endurskoðuð reglulega og kann því að taka breytingum. Þér er því ráðlagt að kynna þér persónuverndarstefnuna reglulega en breytingar á stefnunni öðlast gildi við birtingu á heimasíðu fyrirtækisins; www.leggja.is. Þegar efnislegar breytingar eru gerðar sem hafa áhrif á réttindi þín munum við tilkynna sérstaklega um þær með tölvupóstskilaboðum og/eða með SMS skeyti.

ÖRYGGISSTEFNA

    Það er stefna Leggja að tryggja öryggi upplýsinga félagsins og viðskiptavina sinna m.t.t leyndar, réttleika og tiltækileika. Það er okkar stefna að standa vörð um öryggi gagna og þess búnaðar sem gögnin eru rekin á.

    • Leggja leitast við að finna og meðhöndla áhættu. Áhættumat og innri úttektir eru framkvæmdar reglulega til að ákveða hvort frekari aðgerða sé þörf og til að vinna að stöðugum umbótum.
    • Leggja verndar gögn og upplýsingakerfi gegn óheimiluðum aðgangi, notkun, breytingum, uppljóstrun, eyðileggingu, tapi eða flutningi.
    • Leggja starfrækir skilvirk aðgangsöryggiskerfi að húsnæði og upplýsingakerfum fyrirtækisins með það að marki að vernda gögn og búnað gegn rekstrartruflunum, misnotkun, þjófnaði, skemmdarverkum, glötun o.s.frv.
    • Starfsmönnum og þjónustuaðilum, núverandi og fyrrverandi, er óheimilt að veita upplýsingar um innri mál Leggja, viðskiptavina eða annarra starfsmanna.
    • Leggja stuðlar að virkri öryggisvitund starfsmanna, viðskiptavina, þjónustuaðila og gesta með kynningum og þjálfun. Starfsemi og starfshættir skulu vera til fyrirmyndar hvað varðar upplýsingaöryggi.
    • Leggja fylgir góðum viðskiptaháttum, landslögum og persónuvernd til að tryggja hagsmuni viðskiptavina.

    Leggja endurskoðar þessa stefnu eins og tilefni er til en að lágmarki á tveggja ára fresti.